Minningarorð um félaga

Mætur félagi í Golfklúbbi Selfoss er fallinn frá. Vilhjálmur Þór Pálsson var frá upphafi og stofnun Golfklúbbs Selfoss verið einn öflugasti og virkasti meðlimur klúbbsins. Villi, eins og hann var kallaður, gegndi margvíslegum störfum fyrir klúbbinn. Villi byrjaði golfiðkan á golfvellinum við Engjaveg  fyrir 1980. Hann var meðstjórnandi árin 1981 og 1982, og gjaldkeri klúbbsins árið 1983. Þá var spilað á golfvellinum við Alviðru. Hann vann fyrst til verðlauna á þeim árum.

Villi var gríðarlega mikill keppnismaður í golfinu. Hann fór hratt yfir, mátti ekki vera að því að slóra. Hann tók þátt í meistaramótum og vann  oft til verðalauna, sérstaklega í flokki Eldri kylfinga.

Þau Tóta, eiginkona hans, voru sennilega þeir meðlimir klúbbsins sem spiluðu völlin okkar hvað oftast, sama hvaða árstíma var um að ræða. Það þurfti ansi slæmt veður til að Villi færi ekki hring, ef ekki tvo. 

Villa var mjög annt um framgang og uppvöxt Golfklúbbs Selfoss og fylgdist hann ævinlega með árangri yngri kylfinga og hvatti þá áfram.

Við sendum Tótu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur, megi minningin um góðan félaga lifa.

Félagar í Golfklúbbi Selfoss

Villa til vinstri og Ingólfur til hægri