Minningarorð um Ingólf Bárðarson.

Ingólfur Bárðarson fæddist 20. ágúst 1934 og lést 25 júní síðast liðinn. Félagar hans í Golfklúbbi Selfoss sakna hans. Hann náði góðu sambandi við alla þá sem umgengust hann og bar með sér gleði og ánægju. Ingólfur Bárðarson var einn af frumherjum Golfklúbbs Selfoss og var starfandi allt frá byrjun, árið 1971. Hann var lengi einn af ötulustu sjálfboðaliðum í starfi klúbbsins og var formaður hans árin 1981-1983 og sat samfellt í stjórn klúbbsins í 16 ár. Hann tók meðal annars þátt í uppbyggingu golfvallar við Engjaveginn á Selfossi og þegar nýir golfvellir voru byggðir upp að Alviðru við Sog og að lokum við Svarfhól þar sem golfvöllurinn er nú.

Ingólfur var mjög áhugasamur um velferð klúbbsins og fylgdist mjög vel með árangri annarra golfklúbbsfélaga og var óþreytandi við að hrósa mönnum fyrir góðan árangur,  hvatti menn óhikað áfram. Ingólfur var ætíð boðinn og búinn að leiðbeina, aðstoða kylfinga og gefa þeim góð ráð.

Sjálfur var hann liðtækur golfari og varð klúbbmeistari Golfklúbbs Selfoss alls 8 sinnum. Ingólfur hafði sérstaka golfsveifluaðferð við að slá golfkúluna, sem hann hafði þróað að mestu að eigin hugviti. Sveiflan var þannig að það fór ekki á milli mála hver var að sveifla kylfunni og þekktist úr langri fjarlægð hver var á ferð, en hún var að sama skapi árangursrík fyrir hann.

Ingólfur var duglegur við æfingar og nýtti öll þau tækifæri sem gáfust til að æfa eða stunda íþróttina. Einnig fór hann mikið erlendis og þá sérstaklega til heitari landa þar sem hann naut sín vel við að heimsækja og spila þarlenda golfvelli.

Ingólfur var sæmdur gullmerki Golfsambands Íslands fyrir störf sín í þágu golfhreyfingarinnar, einnig var hann gerður að heiðursfélaga Golfklúbbs Selfoss. Hann var hrókur alls fagnaðar á skemmtunum. Sagði yfirleitt eina eða tvær góðar sögur, auk þess sem hann dansaði mest af öllum með stæl við Lúllu sína og aðrar sem tiltækar voru.

Blessuð sé minning um góðan félaga. Félagar í Golfklúbbi Selfoss senda fjölskyldu Ingólfs hlýjar óskir og samúðarkveðjur.

 

Samúel Smári Hreggviðsson og Bárður Guðmundarson

Fyrrum formenn Golfklúbbs Selfoss.

 

Útför Ingólfs fór fram í kyrrþey frá Selfosskirkju fimmtudaginn 18. júlí 2019.