Á nýafstöðnum aðalfundi Golfklúbbs Selfoss var staða framkvæmda á golfvellinum kynnt, auk þess sem Svanur Geir Bjarnason hélt áhugavert erindi um nýja, fyrirhugaða brú á Ölfusá.

Eins og flestir vita hafa framkvæmdir staðið yfir á Svarfhólsvelli undanfarin ár. Þrjár holur hafa verið í uppbyggingu, en þær eru hluti af aðlögun vallarins að breyttri legu þjóðvegarins og nýrri brú.

Þessar þrjár holur munu koma í stað brauta nr. 1, 2 og 3 á núverandi velli. Þær leggjast af, þar sem að nýtt vegsvæði liggur þar um.

Á næsta ári munum við leika nýju holurnar. Einnig verður nýtt æfingasvæði byggt upp, með glæsilegu æfingaskýli. Stefnt er að því að það verði komið í notkun í maí eða júní 2022.

Skýlið verður með fjórtán básum, þar af tveimur fyrir golfkennslu, auk þess sem hægt verður að slá af grasi (sjá mynd).

Hönnuðir æfingaskýlisins eru þeir Óli Rúnar Eyjólfsson og Bent Larsen hjá Larsen og ráðgjöf, sem gáfu GOS vinnu sýna. Við þökkum þeim kærlega fyrir!

Næsta vor verður einnig vígt glænýtt æfingasvæði fyrir styttri höggin, eða stutta spilið, með stórri flöt til að slá högg inná, af 20 til 100 metra færi. Á sama svæði er stór flöt fyrir vipp og pútt, með glæsilegum glompum.

Ljóst er að þessi aðstaða verður alger bylting fyrir æfingar félagsmanna og gesta GOS, enda stórkostlegt svæði (sjá mynd).

Síðasta vor var einnig byrjað að grófmóta fimm nýjar golfbrautir, en gerð þeirra er liður í stækkun golfvallarins. Í átján-holna skipulagi er þær verðandi holur nr. 6, 7, 15, 16 og 17. Þær eru mislangt komnar. Sett verður niður vökvunarkerfi á teigum, brautum og flötum á öllum þessum brautum, líkt og gert var á þremur nýjustu holunum. Ræktun fer fram alfarið með sáningu.

Stefnt er að því að opna inn á þessar holur 2024 og verður þá völlurinn fjórtán holur. Reiknað er með að völlurinn verði orðinn átján holur árið 2026.

Nú standa einnig yfir framkvæmdir á verðandi par-3-velli, sem fengið hefur vinnuheitið Gosi, en þar verða sex fallegar par-3-holur. Stefnt er að því að opna hann 2024, í síðasta lagi.

Á aðalfundinum kynnti Svanur framkvæmdir á Ölfusárbrú, en framkvæmdir hefjast vonandi eftir eitt ár. Stefnt er að því að opna þar fyrir umferð 2025-2026, eða um svipað leyti og við vonumst til að vera komin með átján holur og fullkomna aðstöðu til æfinga og upphitunar (sjá myndir).