Kjartan Gunnarsson fæddur 12.05.72.

Klúbbmeistari GOS 1991,1992 & 1994.

Unglingameistari GSÍ (undir 18 ára) 1988.

Kjartan segir svo frá: „Ég byrjaði í golfi 10 ára, eða 1982. Þá var golfvöllur GOS í Alviðru. Foreldrar mínir, ég og bróðir, Stefán, fóru yfirleitt saman á golfvöllinn í byrjun. Ég minnist sérstaklega Benedikts Ásgeirssonar sem bjó við Engjaveginn og hafði byrjað í golfi á golfvellinum við Engjaveg. Við spiluðu saman í Alviðru. Benedikt var fyndinn og bráðgáfaður. Hann lést í bílslysi ungur.

Golfvöllurinn í Alviðru var ekki í göngu eða hjólafæri. Það þurfti bíl til að komast á völlinn og því voru ekki mörg börn eða margir unglingar í golfi. Þeir sem áttu foreldra í golfi voru þó þar, svo sem Eiríkur Guðmundsson, Vignir og Stefán Bjarnasynir. Fóru þeir, ásamt Stefáni bróður mínum, saman í Alviðru og á mót á öðrum völlum. Það var tekið afskaplega vel á móti okkur, við boðnir velkomnir alls staðar.

Við voru fengnir til að vera kylfusveinar hjá þeim eldri, svo sem Pétri Péturssyni og Ingólfi Bárðarsyni. Ég fór með Ingólfi á Íslandsmót í Grafarholti. Ingólfur var góður golfari þegar hann stundaði íþróttina sem mest. Ég fékk að sjá hvernig bera skyldi sig að á stórmóti. Ingólfur var mikill keppnismaður, en líka heiðursmaður og vinsæll. Hann þekkti marga og var alltaf hlægjandi og fíflaðist í öðrum, en var svo 100% tilbúinn á fyrsta teig. Ég var 12 til 14 ára á þessu móti, en Ingólfur kom alltaf fram við mig sem jafningja, vildi ræða smáatriði í sveiflunni og var alveg tilbúinn að breyta ef ég kom með tillögur.

Það voru fleiri ungir strákar í golfi, t.d. Björn Snorrason, Páll Skaftason og Grímur Arnarson. Þeir voru alltaf til í að keyra á Strönd eða annað og spila hring, það voru frábærar ferðir. Eins og með Ingólfi,  þá fannst mér eins og maður væri meðal jafningja, þó maður væri ekki gamall. Alltaf mikil keppni, en líka gaman.

Við spiluðum nánast á hverjum degi yfir sumartímann. Fljótlega hófum við keppni á mótum víða um land. Ég man sérstaklega eftir Íslandmóti unglinga í Vestmannaeyjum, líklega 1986. Allir strákarnir úr GOS fengu að fara á mótið án foreldra. Fórum við nokkrum dögum fyrir mótið, spiluðum frá morgni til kvölds á golfvellinum í Eyjum. Við lifðum á pylsum og kóki, sváfum í skóla á flatsæng. Eyjafólkið leit eftir okkur. Við tókum svo þátt í mótinu. Mér gekk vel í upphafi, en það fjaraði undan því. Í Eyjum kynntist ég til dæmis Júlíusi Hallgrímssyni og Sindra Óskarssyni, tveir frábærir strákar og golfarar. Við spiluðum saman fyrsta hringinn í mótinu og síðar fórum við saman í landsliðsferðir.

Það var mikið að gera hjá mér á þessum árum. Þegar ég var 14 til 15 ára var ég í golfi, fótbolta og handbolta. Það var mögulegt, en mikið púsluspil. 1985 var ég valinn af GSÍ í hóp ungra kylfinga, sem sendur var á mót í San Remo á Ítalíu. Það var mikil upplífun að spila í hitanum þar. Í fótboltanum var ég með Guðjóni Þorvarðarsyni, Valgeiri Reynissyni og fleirum snillingum undir stjórn Gylfa Þ. Gílsasonar. 15 – 16 ára var ég oft meiddur og gat því lítið spilað fótbolta. Á sama tíma, eða 1988, gafst mér kostur á að komast í 14 daga golf-æfingabúðir í London. Við vorum 6 strákar sem GSÍ sendi í þessar búðir. Við bjuggum hjá enskum fjölskyldum og var tekið afskaplega vel. Æfingar voru frá morgni til kvölds með frábærum þjálfara. Þegar ég kom heim var ég í toppformi. Það var stutt í Íslandsmótið, sem haldið var á Strönd, okkar heimavöllur þá. Mér hefur alltaf fallið vel við þann völl. Ég spilaði frábært golf þrátt fyrir að veðrið var afar vont og þurfti að stytta mótið vegna þess að varla var stætt fyrir vindi. Veðrið hafið ekki nein áhrif á mig, ég hitti hvern einasta bolta eins vel og hægt var að hugsa sér. Held að ég hafi ekki leikið betur í annan tíma heldur en í þessu móti. Enda varð ég Íslandsmeistari undir 18 ára.

Á vetrum hafði ég aðstöðu í bílskúrnum heima. Pabbi hafði útvegað net og gat ég staðið og slegið. Snemma vors tók ég með mér mottu niður í fjöru við Óseyrarbrú og sló eins ég vélmenni. Allir boltanir lentu á sama fermetranum, vetraræfingarnar skiluðu sér. Næsta sumar vann ég hjá áhaldahúsi Selfossbæjar, var á loftbor að brjóta steypu. Það var ekki það sniðugasta sem ég hef gert um æfina, maður var alveg búinn í höndunum eftir hvern vinnudag.

Sumarið 1988, 1989 & 1990 var ég í U18 landsliði GSÍ. Fórum við á þó nokkur mót á þessum árum til Danmerkur, Svíþjóðar, Frakklands og Skotlands. Einnig var Evrópumeistarmót haldið í Grafarholti. Árangurinn var upp og niður, en maður man mest eftir löngu púttunum sem duttu og minna eftir höggunum sem rötuðu inn í skóga.

Um haustið 1990, og veturinn þar á eftir, urðu ákveðin kaflaskil fyrir mig. Ég var einhvern veginn búinn að fá nóg af landsliðsverkefnum og ef ég vildi bæta mig, þá þyrfti ég að æfa meira og spila um allar helgar. Þegar ég ákvað að minnka við mig, fann ég fyrir heilmiklum létti. Það fylgir því mikil pressa að fara á mót og þurfa helst að vera bestur. Á sama tíma spilaði ég meiri handbolta. Það hentaði mér vel að vera í hópíþrótt og ekki endilega berandi kraftur. 1988 til 1989 voru frábærir árgangar að koma upp í handboltanum. Einar Gunnar Sigurðsson, Gústaf Bjarnason og fleiri, og með þeim spilaði ég. Það var hægt að spila handbolta að vetri til og svo spila golf á sumrin. Það hentaði mér vel.

Sumarið 1992 flutti ég til Danmerkur og gerðist meðlimur í golfklúbbi í Álaborg fyrstu árin. Það var lítill tími fyrir golf, námið var krefjandi og ég hafði ekki efni á bíl. Því varð minna um golfiðkan heldur en stóð til í upphafi. Seinna flutti ég til Kaupmannahafnar. Ég minnist þess að Hjörður Leví Pétursson kom við hjá mér og við spiluðum saman hring á góðum golfvelli norðan við Kaupmannahöfn. Síðastliðin 15 ár hef ég búið í Kolding á Jótlandi. Í dag spila ég mest fótbolta, en fer einstaka golfhring ef einhver platar mig með sér. Ég á ennþá Mizuno TP9 kylfur og á ennþá í basli með dræverinn. Trékylfurnar þykja merkilegar, þær eru orðnar svo gamlar“.