Fyrstu golfvellir GOS:
Sigurður Kolbeinsson

Ég fermdist vorið 1974 og foreldrar mínur gáfu mér golfsett í fermingargjöf, sem þá var ekki algengt. Sumarið sem í hönd fór átti golfið hug minn allan frá því skóla lauk að vori þar til hann hófst í september. Ég gekk í GR og lék þar linnulaust þetta fyrsta golfsumar mitt og náði strax góðum árangri. Það var svo árin 1975 og 1976 sem ég dvaldi sumarlangt á Selfossi og vann sem bensínafgreiðslustrákur hjá Höfn, þar sem Kolbeinn faðir minn hafði nýlega tekið við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Mér til allrar hamingju höfðu nokkrir forsprakkar í Golfklúbbi Selfoss komið upp eins konar golfvelli við Engjaveg, sem sumir hafa kallað „grýlupottavöllinn“ og það varð til þess að ég gat leikið golf að vild þessi 2 sumur hér á Selfossi. Völlurinn var í upphafi 4 holur og örugglega stysti golfvöllur á Íslandi. Vallarsvæðið afmarkaðist af ferkantaðri túnspildu þar sem tjaldstæði Selfoss hefur verið um árabil. 4 flatir voru á túninu, ein í hverju horni og slegið í átt að þeim utan frá túnspildunni. Klúbbhúsið var lítill skúr, með gluggum og klósetti, staðsettur á sama stað og þjónustumiðstöð tjaldstæðis er nú. Þar gátu félagar sest niður fyrir eða eftir leik, fengið sér hressingu og borið saman skorkort o.s.frv. 1. teigur var svo til hliðar við húsið þar sem slegið var til austurs í átt að hól, sem þar stóð, en nú er þar risin íbúðabyggð við götuna Grenigrund. Brautin var e.t.v. 120 m. og var skráð sem par 3. Í þá daga voru kylfuhausar talsvert frábrugðnir því sem nú þekkist, mun minni og sköftin ekki með nútíma sveigjanleika, því urðu öll högg talsvert styttri en golfarar þekkja nú til dags. Flötin var hringlaga og nokkuð stór minnir mig og vel slétt, þetta var í raun léttasta hola vallarins. 2. teigur var svo staðsettur upp á hólnum, sem áður var getið, og þaðan slegið til suðurs, þvert yfir kargann yfir i SA-horn túnspildunnar þar sem hraunsteinn eða „grýlupottur“ var fyrir framan flötina, hindraði þannig beina leið boltans frá teig að flötinni. Menn slógu þetta gjarnan með driver eða 3-tré og brautin var um 170 m löng, par 3 eins og sú fyrsta. Þessi braut reyndist flestum erfiðust að para. Þegar leik lauk við 2. braut héldu menn út í móann til austurs, ca. 30 m þar sem teigstubbur hafði verið útbúinn. Þar var slegið þvert yfir túnspillduna til vesturs í átt að núverandi knattspyrnuvelli Selfyssinga. Þetta var stysta brautin (meðan völlurinn var enn 4 holur), líklega um 90 m að flöt. Nokkuð létt braut en frekar lítið fyrir augað. 4. brautin var sú lengsta og sú eina sem skráð var með par 4. Þá var gengið frá 3. flöt út í skógræktina til suðurs, sem þá var og hét, og þar sem hjólreiða- og göngustígur liggur um þessar mundir og tengir byggðina í suðri við tjaldstæðið og Engjaveginn. Þar lengst út í kjarri, þar sem engin byggð var í þá daga, var búið að útbúa ágætis teig ofan á litlum hól þaðan sem leikmenn slógu í hægri átt til að miða beint inn á miðja brautina. Ef teighögg tókst vel áttu menn líklega um 70-100 m að flöt, sem var í SV-horni túnspildunnar, séð frá Engjavegi, allvega við hornið þar sem nú er ekið inn á tjaldstæðið. Mig minnir að við höfum vanalega leikið þennan 4ja holu hring á um 25 mín. Fáeinum árum síðar, líklega 1977 eða 1978 var holum fjölgað um 2 eða í 6 alls og röð brauta breytt lítillega. Fyrst braut var þá beint til vesturs frá klúbbhúsi í átt að bílastæði knattspyrnuvallarins og þar hafði verið útbúin lítil tjörn á miðri brautinni til að fegra umhverfið. Slegið var beint yfir tjörnina í átt að litlum hringlaga bletti sem hafði verið þakinn með torfum og hann sleginn vel og úr varð ágætis flöt. Brautin sjálf var 80-90 m og menn vippuðu með wedge eða 9-járni inná þessa litlu flöt, ellegar í námunda við hana og síðan var vippað inná. Næsta braut snéri í gagnstæða átt, þar þurftum við að klofa yfir vírgirðingu, sem þar var og brautin, þ.m.t. teigurinn og flötin voru í miðju birkikjarri. Sjálf brautin var 68 m minnir mig, álíka og 15. braut á Urriðavelli fyrir þá sem hana þekkja. Bara vippað inná og flötin tók vel við. Auk þess hallaði flötin að miðju frá öllum áttum og ef flagginu var komið fyrir þar var ekki óalgengt men fengju fugl á þessari léttustu braut vallarins. Svona gekk þetta fram að 1980-1981 þegar GOS fékk úthlutað vallarsvæði við Alviðru þar sem útbúinn var 9 holu golfvöllur í leiðinda landi, sem hallaði undan Ingólfsfjalli og allar brautir meira og minna á fótinn fyrir bragðið. Eftir það mun golfiðkun hafa lokið við Engjaveginn. Landvernd átti og á enn þetta land við Alviðru og klúbburinn fékk landið leigt eða lánað í tiltekinn tíma. Á endanum var samningi sagt upp þar sem landeigendur hugðust nýta það undir aðra starfsemi, sem síðar varð ekkert af. Enn má sjá leyfar af 7. flötinni nálægt þjóðveginum, en hún var útbúin úr jarðvegi og túnþökum og tók ágætlega við boltum sem flugu hratt og bratt niður í móti frá teig, sem staðsettur ofarlega við rætur Ingólfsfjalls. Þetta er það eina sem ég man eftir þeim velli, sem mér þótt aldrei skemmtilegt að leika, enda hafði ég allt annan samaburð úr Grafarholti, sem var minn heimavöllur á þessum árum. Ég tel að það hafi verið mikið lán að GOS fékk úthlutað landi við Svarfhól, sem leigt var klúbbnum í um 30 ár, þar til Sveitarfélagið Árborg eignaðist landið. Að sama skapi gátu félagar í GOS kvatt Alviðruvöllinn með lítilli eftirsjá enda ber það land nú merki eyðibýlis, sem var yfirgefið fyrir 30 árum.
Frumkvöðlar GOS voru nokkrir auk Kolbeins föður míns, en helsta má nefna Ingólf Bárðarson, Árna Guðmundsson og nafna hans Óskarsson ásamt nánum félaga sínum og nágranna við Engjaveginn, Pétri Péturssyni. Þar að auki má nefna Ólaf Þorvaldsson, Svein Sveinsson og Sigurfinn Sigurðsson. Flestir þessara ágætu manna eru horfnir til feðra sinna, þeir unnu mikið starf fyrir klúbbinn í árdaga. Heiðruð skal minning þeirra og þess brautryðjendastarfs sem þeir unnu fyrir golfklúbbinn okkar. Síðan vorum við nokkrir ungir sveinar af næstu kynslóð sem fylgdust með framkvæmdum um leið og við lékum á þessum völlum og nutum starfa frumkvöðlana. Sumir okkar voru synir þeirra, þ.m.t. Sævar Pétursson, sem var golffélagi minn hér á Selfossi í nokkur ár, auk annarra stráka sem þá stunduðu golfið með miklum áhuga, en þar koma upp í hugann Smári Jóhannsson, Vésteinn Hafsteinsson og Ámundi Sigmundsson.
Mér er þessi tími enn í fersku minni þó svo liðin séu tæp 50 ár síðan ég lék fyrst golf á gamla „grýlupottavellinum“ við Engjaveg og því gaman að rifja þennan tíma upp nú á 50 ára afmælisári GOS. Það eina sem skyggði á, eftir á að hyggja, er að nánast engar konur, né stúlkur, sáust leika golf á Selfossi á þessum upphafsárum. En minningarnar ylja og ég vil nota tækifærið til að óska öllum núverandi og fyrrverandi félögum til hamingju með klúbbinn okkar. Við megum vera stoltir af verkum frumkvöðlanna, sem ruddu brautina, sem síðar reyndist grundvöllur þeirra framkvæmda sem nú er verið að vinna að með glæsibrag við Svarfhól. Til hamingju með afmælið kæru félagar í GOS.
Sigurður K. Kolbeinsson