Golfklúbbur Selfoss 50 ára

                Fyrstu kynnin mín og Ásgeirs mannsins míns af golfi voru þegar vinur okkar Ragnar Ragnars bauð okkur með sér í Öndverðarnes og þar spiluðum við með mjög gömlum kylfum sem faðir hans Ásgrímur Ragnars hafði átt en þess má geta að Ásgrímur var fyrsti formaður Golfklúbbs Suðurnesja. Við vorum bæði búin að gutla í badmintoni en fundum fljótt að þetta var eitthvað sem við vildum halda áfram. Það var gott að komast út á völl úr hitanum í gróðurhúsunum sem við rákum þá í Hveragerði. Við fréttum svo af því að Golfklúbbur Selfoss væri með aðstöðu í Alviðru og sóttum um inngöngu að ég held 1983 eða 84. Ég man alltaf hvað það var tekið vel á móti okkur og við boðin innilega velkomin. Völlurinn var nú ekkert sérstaklega skemmtilegur og sólin fljót að fara seinnipartinn en þarna var skemmtilegur félagskapur. Börnin okkar fóru fljótlega að koma með okkur sem reyndist vel þegar þurfti að leita að golfkúlum í skurðunum sem voru milli brauta. Það skeði ýmislegt skemmtilegt á þessum velli og í einu golfmóti lenti golfkúla inn um eldhúsglugga klúbbhússins og það flaug strax fyrir að Ásgeir nokkur Ólafsson væri sá óheppni.  Þannig vildi til að við vorum nokkrir Hvergerðingar sem komum í klúbbinn á sama tíma og áttu Ásgeir og ónefndur félagi rauða regnjakka og voru báðir ljóshærðir. Af einhverjum ástæðum mundu menn bara nafnið á Ásgeiri svo sökudólgurinn slapp við stríðni. Þetta tímabil stóð samt stutt því golfvöllur var aflagður í Alviðru en félagar gátu spilað í Öndverðarnesi eða á Strandarvelli næsta ár.

Næsta tímabil mitt í GOS hefst þegar klúbburinn er kominn á Svarfhólsvöll. Ég veit ekki hvort það gera sér allir grein fyrir þeirri gríðarlegu sjálfboðavinnu sem var unnin á þessum velli í mörg ár og hvað margir félagar lögðu mikið á sig. Þarna voru byggðir upp teigar og grín mótuð ásamt glompum og sandur í glompurnar var keyrður um völlinn í hjólbörum. Fyrstu árin verpti Tjaldur í glompu á fyrstu braut og þá smíðuðu menn bara skýli utan um hreiðrið. Þarna voru margir ógleymanlegir karakterar eins og Ingólfur Bárðarson, Kolbeinn Kristinsson, Árni Guðmundsson, Sveinn Sveinsson, Samúel Smári, Guðmundur Eiríks, Bárður, Jón Ágúst, Jón Bjarni, Gunnar Kjartans, Svavar, Viðar, Sigurjón, Sverrir, Haukur, Þórhallur, Ágúst, Árni Möller og Villi og ég vona að það fyrirgefist ef ég gleymi einhverjum. Félagsstarfið óx og dafnaði og vil ég sérstaklega nefna kvennastarfið. Árlega var hið gríðarlega vinsæla opna kvennamót, Valkyrjumótið. Verðlaunin voru umtöluð, flottar snyrtivörur, skartgripir, handverk og alls kyns eigulegir gripir sem klúbburinn fékk gefins. Veitingarnar voru hlaðborð með heimabökuðu og smurðu og verðlaun voru í þrem forgjafarflokkum. Konurnar vorum líka duglegar að fara saman í kvennamót, t.d. á Hvaleyri, Nesvöllinn og Mjallarmótið í Öndverðarnesi. Þá var sett upp tískusýning einn veturinn með golf flíkum og púttkeppni í klúbbhúsinu og svo voru að sjálfsögðu kvennatímar á golfvellinum einu sinni í viku. Þar spiluðu Kristín Stefáns, Kristín Péturs, Guðfinna, Jóhanna, Svanborg, Valey, Eygló, Margrét, Jónbjörg, Guðrún, Þorbjörg, Signý, Rósa, Svava, Gróa. Sigga, Ingunn og Ester og sjálfsagt einhverjar sem ég gleymi. Af föstum liðum í félagsstarfi klúbbsins má nefna vinamót milli GOS og Öndverðarness, spilað til skiptis á völlum klúbbanna.  Þá verð ég að nefna Ryder keppnina á milli GOS og Golfklúbbs Hellu sem var spiluð í nokkur ár til skiptis hjá klúbbunum. Bændaglíman var líka sérlega skemmtileg þegar liðin voru þrjú, Austurbær og Vesturbær Selfoss og svo Utangarðsmenn en þar voru Hvergerðingar, Eyrbekkingar og Stokkseyringar, Ölfusingar og Flóamenn. Þetta var hörkukeppni og ekkert endilega vel séð þegar Utangarðsmennirnir unnu. 😊  Jónsmessumótin voru líka vinsæl með alls kyns fíflagangi. Meistaramótin voru svo sér kapítuli því þá spilaði maður bara eftir vinnu á virkum dögum og svo um helgar. Ég man eftir einu skipti þegar kvennaflokkurinn var seinastur með rástíma, það skall á svarta þoka og þegar við slógum teighöggin á 18 braut um miðnætti sást ekkert en við reyndum að hlusta eftir því hvert kúlan fór. Þegar ég hugsa til baka til þessara ára tengi ég alltaf Ingólf Bárðarson sem Félagann og Gunnar Kjartansson sem Golfvöllinn.

Við fjölskyldan lögðum mikinn metnað í að ná einhverjum tökum á þessu sporti og bjuggum svo vel að vera með stóra lóð og þar voru settar út fötur undan blómum og „sippað“ í þær og svo voru net til að slá í bæði úti og eins inni í vinnuskúr. Við slógum líka blett á túninu þar sem átti að æfa púttin.  Hinn frábæri vallarstjóri GOS Gunnar Marel garðyrkjufræðingur og golf nörd var þá starfsmaður okkar og hóf að æfa golf af miklum krafti með okkur úti á túni og í vinnuskúrnum bæði í matar og kaffitímum og sigldi nú fljótt fram úr okkur í getu á golfvellinum en þetta var skemmtilegur tími.

Við vorum að spila völlinn langt fram eftir vetri á þessum fyrstu árum og í alls konar veðrum og ég man eftir einum skipti þar sem mér var svo kalt á höndunum að ég fann ekki þegar ég missti kylfuna úr höndunum og hún sveif í flottum boga í tjörn sem var þá við hliðina á 6 braut og gat ég sótt hana næsta vor en svona var áhuginn mikill. Við vorum dugleg að taka þátt í mótum og voru æfingarnar farnar að skila sér í bættri spilamennsku.

Besti hringurinn minn hingað til á Svarfhólsvelli er 40 högg í Meistaramóti og við það lækkaði ég hressilega í forgjöf. Ég var svo heppin að vinna kvennaflokkinn í meistaramótum hjá GOS að ég held sex sinnum og  þrisvar sinnum  kvennaflokk í HSK golfmótum, þá var ég einu sinni klúbbmeistari hjá GHG. Ég spilaði líka á Landsmóti ungmennafélaga í Mosfellsbæ í brjálaðasta roki sem ég hef spilað í. Þá var ég í holli með Karen Sævarsdóttur og hún var bara í einhverju allt öðru móti en við hinar og vann með yfirburðum 16 ára gömul. Það var líka eftirminnilegt þegar ég lenti á móti Sveini Sveinssyni í holukeppni GOS og tapaði á 26 holu þegar hann gerði sér lítið fyrir og sló beint í holu utan af velli.

Við fluttum til Reykjavíkur 2001 og gengum í GR og spiluðum þá í fyrsta sinn á Korpúlstaðavelli. Bóndinn var ekki alveg á réttri leið eftir upphafshöggið á 18 braut og lenti kúlan í trjágróðri en mikil var undrun okkar þegar við fundum kúlu sem á stóð „Ásta og Ásgeir Hlíðarhaga“ en sú kúla hafði týnst á Svarfhólsvelli 1992 og einhver greinilega fundið og gefið framhaldslíf. Ég tók ekki þátt í mótum hjá GR en var dugleg að sækja pútt kvöld kvenna ásamt c.a 135 konur og náði því að verða Pútt-meistari GR eitt árið. Ég fór svo holu í höggi á 4 braut á Strandarvelli 2009 og spilaði mitt albesta golf á 59 nettó. Þá lækkaði forgjöfin enn frekar og var lægst 11.7 árið 2010 en ég er hins vegar á staðfastri uppleið, forgjöfin í dag er 17.7 og planið fyrir sumarið er að ná að spila á þeirri forgjöf

Þriðja tímabil mitt í GOS hófst svo á árinu 2020 þegar ég er flutt á Selfoss og geng í klúbbinn og gaman að segja frá því að framkvæmdastjórinn Hlynur er bekkjarbróðir yngri sonar míns og Páll formaður sonur vinahjóna úr Hveragerði svo þetta er allt mjög heimilislegt. Í stuttu máli hefur verið alveg frábært að koma aftur í klúbbinn og ég á orðið margar golf vinkonur sem spila með mér. Það er gaman að sjá allar þessar flottu konur sem spila saman og svo eru skemmtilegir spilatímar fyrir heldri kylfinga á velli og í æfingahúsi. Það er alveg magnað hvað klúbburinn er öflugur og völlurinn aldeilis til fyrirmyndar og nýja æfingahúsið á eftir að gefa af sér flotta kylfinga. Ég hef rætt talsvert um félagsstarf en það er mín skoðun að það sé jafn nauðsynlegt og góður golfvöllur. Ég bíð spennt eftir golfsumrinu 2021 og vona að veðrið leiki við okkur. Í upphafi síðasta sumars saknaði ég þess að geta ekki sest út á pall og notið veitinga með spilafélögum eftir golfhring eins og á Korpu. Nú er hins vegar búið að gefa klúbbnum hin fínustu borð og stóla og hvet ég félagsmenn til að nýta sér þá aðstöðu. Ég vona að félagsmenn verði duglegir að gefa sér tíma til að staldra við eftir hring, fái sér kaffibolla eða veitingar og séu til í spjall, það bætir bara félagsandann. Fyrir mig sem er hætt að vinna er félagsskapurinn eftir leik ekki síður mikilvægur en sjálfur golfhringurinn.  

Til hamingju með afmælið kæru félagar í GOS

S. Ásta Jósefsdóttir