Haustkveðja frá formanni GOS

Kæru félagar. Að lokinni sumarvertíð í golfinu er rétt að líta aðeins yfir starfið, meta stöðuna, hvað hefur verið gert og hvar megum við bæta okkur enn frekar. Að vanda...

Kæru félagar.

Að lokinni sumarvertíð í golfinu er rétt að líta aðeins yfir starfið, meta stöðuna, hvað hefur verið gert og hvar megum við bæta okkur enn frekar. Að vanda munum við fara yfir stöðu mála á aðalfundi í desember og vil ég hvetja alla til að mæta þar og taka þátt í umræðu um klúbbinn okkar.

 

Nú er verið að kalla eftir skýrslum nefnda sem hafa unnið gott starf á árinu. Ég vil af því tilefni minna á að starf klúbbsins stendur og fellur með þátttöku og framlagi okkar félagsmanna sjálfra. Starf í nefndum er mikilvægur hlekkur í starfi klúbbsins og vil ég hvetja alla til að gefa kost á sér til slíkra starfa á einhverjum tímapunkti. Það eflir félagsandann, styrkir tengsl félaganna og eykur fjölbreytni í starfinu að fá sýn sem flestra á það hvernig við getum breytt og bætt starf klúbbsins og mótað til framtíðar.

 

Fjölgun félaga í klúbbnum er okkur ávallt hugðarefni og til að tryggja það höfum við m.a. lagt áherslu á barna- og unglingastarf og móttöku nýliða. Efling kvennastarfs er einnig þáttur sem þarf að hlúa sérstaklega að.

 

Markmið klúbbsins í ofangreindum þáttum og mörgum öðrum má kynna sér betur í Handbók klúbbsins sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ en hana er að finna á vefsíðu GOS. Hvet ég alla til að kynna sér það ágæta stefnumótandi plagg. Stjórn klúbbsins hefur einnig sett sér það markmið að horfa enn frekar til þess skjals við mótun starfsins á komandi misserum.

 

Þrátt fyrir rysjótt tíðarfar framan af sumri gekk rekstur klúbbsins ágætlega, opin mót voru glæsileg og vel sótt og félagsmenn nýttu völlinn vel. Allt þetta munum við fara betur yfir í ársskýrslu og á aðalfundi.

 

Eins og öllum má vera kunnugt eru breytingar á vellinum okkar í farvatninu og spennandi tímar framundan á komandi árum. Ég vil hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í mótun starfsins, leggja ykkar af mörkum í nefndastarfi og koma ykkar hugmyndum og skoðunum á framfæri á uppbyggilegan hátt hvenær sem færi gefst.

 

GOS er nefnilega þið kæru félagsmenn.

 

Um leið og ég þakka öllum fyrir samstarfið og samveruna í sumar hlakka ég til endurfunda við ykkur á aðalfundi og við æfingar og leik í inniaðstöðu í vetur.

 

Kær kveðja,

Ástfríður Sigurðardóttir.